Gæði í samskiptum.                                                                            

Leikskólinn Dalur leggur megináherslu á gæði í samskiptum til að tryggja öryggi og vellíðan barna í leikskólanum sem fylgir þeim út í lífið.

Samskipti er grundvallarþáttur í öllu starfi leikskóla en daglega fara fram margvísleg samskipti milli ýmissa aðila s.s barna, foreldra og kennara.

Lögð er áhersla á að vandað sé til þeirra samskipta sem fram fara innan leikskólans. Með umgengni við aðra læra börn undirstöðuatriði í samskiptum, þroska félagslega færni sína og sjálfsmynd. Leikskólinn er hluti af lífi flestra barna í dag en þar er þeim tryggt öryggi, fagleg umönnum og nám við sitt hæfi. 

Forsenda þess að barn geti unað sér, dafnað, leikið sér og lært er að það njóti ábyrgrar umönnunar. Með góðri og nærgætinni umönnun skapast náin tilfinningatengsl og trúnaðartraust milli barns og kennara. Slík tengsl veita barninu öryggi til þess að láta í ljós tilfinningar sínar, leika sér frjálst og skapandi. Umhyggja og nálægð kennarans við barnið í leik og starfi gefur dvöl þess í leikskólanum meira gildi. Barnið þarf að njóta aðstoðar til að vinna úr þeim áföllum sem það kann að verða fyrir. Það þarf að fá aðstoð við að setja orð á tilfinningar sínar, hugsanir og líðan. Góð samskipti og samvinna meðal kennara er forsenda þess að hægt sé að skapa börnum jákvæð og þroskavænleg uppeldisskilyrði. Samskipti eru lærð fyrst og fremst af reynslu og af því sem fyrir okkur er haft.

Samskipti ná yfir öll mannleg tjáningaform sem hver og einn þarf að tileinka sér og notar til að lifa og þroskast í samfélagi við aðra. Jákvætt og skilningsríkt viðhorf til barnsins þarf að ríkja í öllum samskiptum og birtast í öllum þáttum uppeldisstarfsins.  Fullorðnir eru fyrirmyndir barna. Það sem við gerum skiptir meira máli en það sem við segjum. Það skiptir miklu máli í samskiptum hvernig töluð orð, látbragð og svipbrigði eru notuð. Virðing og umhyggja í samskiptum skipta sköpum. 

Þegar rætt er við barn er mikilvægt að ná augnsambandi við það og tala rólega til þess. Til að stuðla að öryggiskennd barns og ró þarf að vanda orð og raddblæ. Virðing fyrir skoðunum, tillögum og uppástungum barnsins hefur líka mikið að segja. Kennari þarf að vera samkvæmur sjálfum sér þannig að barnið viti alltaf á hverju það á von.  Í framtíðinni viljum við sjá samfélag sem einkennist af virðingu. Við viljum sjá jákvæða, sjálfstæða einstaklinga með sterka sjálfsmynd sem geta átt góð samskipti við aðra. Fordómalausa, skapandi einstaklinga með gagnrýna hugsun.

Einstaklinga sem vilja og geta tjáð sig, hjálpast að, bera virðingu fyrir öðrum og ábyrgð á eigin lífi. Til að byggja börnin upp þannig að þau verði fær um að takast á við samfélag framtíðarinnar viljum við vera góðar fyrirmyndir, hjálpa þeim að taka ákvarðanir og standa við þær. Við viljum kenna þeim að leysa sjálf deilur á jákvæðan hátt, auka sjálfstraust þeirra, sjálfsmynd og kenna þeim góða samskiptahætti. Börn tileinka sér þekkingu í gegnum leik og í samskiptum við aðra og umhverfið.

Þau þurfa að fá að skoða, kanna og handfjatla fjölbreyttann efnivið og það þarf að skapa þeim góð leikskilyrði. Þau þurfa auk þess að fá tækifæri til að mistakast og læra af mistökunum. Til að tryggja vellíðan barnanna þurfa þau að geta upplifað öryggi, festu, ást, hlýju og vináttu. Þau þurfa einnig að fá tækifæri til að gera það sem þau hafa áhuga á.