Nám í leikskóla
Leikskólastarf byggist á lögum um leikskóla nr. 90/2008 þar sem lögð er áhersla á gildi leiksins. Námssvið leikskólans eru: læsi og samskipti, heilbrigði og vellíðan,sjálfbærni og vísindi,sköpun og menning. Þessi námssvið eiga að vera hluti af leik barna og vera samþætt daglegu skólastarfi. Námssviðin eiga að stuðla að sjálfstæði og frumkvæði, hvetja til samvinnu og samstarfs sem og vekja forvitni og hvetja til rannsókna og kannana (Aðalnámskrá leikskóla, 2011).
Leikur og nám
Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og kennsluaðferð kennarans, meginnámsleið barna og gleðigjafi og veitir vellíðan. Leikurinn í allri sinni fjölbreytni er kjarninn í uppeldisstarfi allra leikskóla. Í bernsku er leikurinn, það að leika sér, það sama og að læra að afla sér þekkingar. Í frjálsum leik er barnið að skapa leikinn úr eigin hugarheimi. Kennarar þekkja leik barna, þeir virða og hlúa að honum, gefa honum rými og skipuleggja leikumhverfið.
Lýðræði og jafnrétti í leikskólastarfi
Markmið með lýðræði í leikskólastarfi er að fá barnið til að hafa áhrif á starfið, finni að á það sé hlustað og það læri að bera ábyrgð á sjálfum sér. Leikskóli er vettvangur þar sem leggja á áherslu á gildi og starfshætti sem renna stoðum undir lýðræðislegt samfélag. Í daglegu starfi leikskóla er lögð áhersla á að börn beri virðingu og umhyggju fyrir öðru fólki, þrói með sér samkennd, tillitssemi, umburðarlyndi og vináttu. Í leikskóla eru foreldrar, kennarar og börn samstarfsaðilar.