Skólastarf í Kópavogi í samkomubanni

Í Kópavogi er verið að skipuleggja skólastarf næstu vikurnar með það að leiðarljósi að tryggja sem mestan stöðugleika, öryggi og virkni barnanna okkar. Þessir tímar eru mikil áskorun fyrir okkur öll og það sem einkennir starfið núna er einstök samheldni, jákvæðni og samstaða um að vinna sem best úr aðstæðum með hag barnanna okkar að leiðarljósi.
 
Leikskólar
Í leikskólunum er almennt lagt upp með að skipta barnahópnum í tvo hópa og dvalartíminn skiptist því á milli þeirra. Opnunartími styttist lítillega til að skapa svigrúm fyrir góðan frágang í lok. Leikskólakennarar munu leitast við að halda uppi faglegu starfi og virkni barna, meðal annars með mikilli útiveru í samræmi við veður og aðrar aðstæður. Börn matast í heimastofunum sínum og reynt verður að skapa hlýlegar og notalegar aðstæður fyrir börnin okkar eins og hægt er.