Sími 441 6000

Málþroski

Málþroski

Málörvun – mjög mikilvægur þáttur í lífi ungra barna.

Hlutverk foreldra í málörvun felst í góðri fyrirmynd, samræðum og lestri. Börn sem hafa greiðan aðgang að fólki (foreldrar, systkini, amma/afi) sem ræðir við þau, les fyrir þau og kennir þeim ný orð og hugtök eiga öllu jöfnu auðveldara með að ná tökum á lestri. Orðaforða læra börn ekki síst af foreldrum sínum og samræður og lestrastundir með fjölskyldunni leggja grunn að bernskulæsi sem og góðum málþroska.

Hægt er að stuðla að auknum málþroska m.a. með því að:

  • hlusta á börnin og tala við þau
  • syngja og kenna  þeim rím, vísur og þulur
  • hvetja börnin til að segja frá atburðum og sögum og nota málið í mismunandi samhengi
  • lesa fyrir þau sögur og bækur sem innihalda litríkt mál og góðan orðaforða
  • ræða og útskýra lesefnið jöfnum höndum
  • spyrja spurninga til að athuga hversu vel börnin fylgjast með
  • biðja börnin um að giska á framhald og sögulok til að skapa eftirvæntingu og gera þau að meiri þátttakendum  í sögunni

Barnabækur gegna grundvallarhlutverki fyrir málþroska og bernskulæsi og þess vegna er mjög mikilvægt að foreldrar lesi mikið fyrir börnin sín frá fyrstu tíð. Börn læra mikið, mest ómeðvitað, um mál og ritmál þegar lesið er fyrir þau og sú vitneskja sem þannig síast inn er nauðsynleg forsenda læsis.

Bækur fyrir börn á leikskólaaldri eru yfirleitt myndabækur. Fyrstu bækur barna eru oftast bendibækur. Þær eru lesnar fyrir börnin á þann hátt að sá sem les bendir á myndirnar og segir orðið yfir það sem er á myndinni og ræðir gjarnan um það við barnið. Smám saman fer barnið svo að benda sjálft og myndast við að segja orðið sem við á. Þarna fara fram mikilvægar samræður foreldris og barns á fyrsta og öðru ári og í þessu er fólgin mikil málörvun. Orðaforði barnsins og málskilningur eykst og það lærir heilmikið um samtöl og málleg samskipti. Og ekki má gleyma því að þetta er mikil skemmtun.

Þegar barnið eldist og þroskast verða myndabækurnar flóknari og meira krefjandi. Það á bæði við um textann og myndirnar og samspil mynda og texta verður meira og nánara. Táknkerfi textans og myndanna síast inn í barnið þegar lesið er fyrir það og myndirnar skoðaðar um leið. Hér eru því tekin mikilvæg skref í þróun læsis, bæði á texta og myndir.

Tekið af http://lesvefurinn.hi.is/Þetta vefsvæði byggir á Eplica